16 janúar 2012

Stóra saltmálið.

Þá er það stóra saltmálið sem rak á fjörur fjölmiðlanna, mikið er þetta gott fyrir þessa vesælu miðla okkar sem eru eins og undanvillingar þegar þingið er í jólafríinu sínu, æða út um allt og leita að einhverju sem gæti stytt þeim stundir. Og viti menn þeir fundu stóra saltmálið. þarna var komið mál sem mátt þvæla fram og aftur fréttatíma eftir fréttatíma spyrja einhverja sjálfkjörna eða pólitískt ráðna "besser vissera" um þetta "dæmalausa mál" og ekki stendur á svörum frá þessum bjánum þó þeir hafi ekki gripsvit á málinu frekar en ég. Svörin eru öll á einn veg, eintómt bull og þvæla, gersamlega gagnslaust þvaður. Einhver framsóknarþingmaður/þingkona sagði að þetta saltbull væri runnið undan rifjum kratanna til að koma óorði á íslensk matvæli, þessu vil ég trúa því þeir reyna endalaust að telja okkur trú um að allt sé betra sem frá ESB kemur, en held nú samt að það sé orðum aukið.

Staðreyndin er að þetta salt er ekki hættulegra til notkunar hér á landi en í öðrum evrópulöndum þar sem það er notað, þetta er ekki sér framleitt fyrir Ísland. Til hvers er "iðnaðarsalt" notað ef ekki í iðnaði? Iðnaðarsalt er minna unnið og þess vegna ódýrara en matar salt en ekkert hættulegra, kemur úr sömu námu, það er minna sigtað og þessvegna grófara og hentar ekki til að setja í saltstauka með litlum götum, á veitingastöðum og í heimahúsum.

Spánverjar gerðu kröfu hér áður fyrr um að salt framleitt á Spáni færi í þann saltfisk sem þeir keyptu af okkur og við því var orðið. Ég kom oft til Torrevieja og Almería á Spáni til að sækja salt þegar ég var til sjós. Þar er saltið framleitt þannig að sjó er dælt upp í grunn lón og sólin látin eima vatnið frá sjónum og verður þá saltið eftir á botni lónsins. Því er síðan ýtt með jarðýtu í haug við annan enda lónsins, þar er það oft lengi áður en því er mokað upp á færiband sem færir það til skips í "bulk" þ.e. í lausu. Ekki kæmi mér á óvart að eitthvað gæti blandast saltinu meðan það bíður flutnings. Síðan er saltinu mokað með krabba á vörubíla þegar heim er komið, líka í lausu, og því sturtað inn á gólf í fiskvinnsluhúsinu og því mokað yfir fiskinn eða sett í pækil. Þetta þekkja allir sem hafa unnið í fiski á Íslandi.


Torrevieja Salt production. Er þetta iðnaðar salt? eða fer það í fiskinn okkar.

Oft eru notaðar "traktorsgröfur" í lestum skipsins til losa um saltið að færa að krabbanum. Það má gera sér í hugarlund að ýmislegt geti komist í saltið frá því sjónum var dælt upp í lónið á Spáni þar til það fer í fiskinn hér heima gröfur, sem kannski eru notaðar til að moka haughús og ýtur geta lekið olíu, óhreinindi og nagdýr geta verið í lestum skipsins einnig getur opinn pallur vörubílsins verið óhreinn (td. fuglaskítur á honum) og svo geta komist óhreinindi í hauginn í salthúsinu hjá fiskverkandanum.Mér skilst reyndar að í dag sé salt sekkjað í stórsekki af innflutningsaðilum hér heima og einnig flutt inn í þessum stórsekkjum en stundum geymt úti í þeim, bæði hér heima og erlendis og telst þá væntanlega "Iðnaðarsalt". Hversu stór hluti saltsins sem notaður er í saltfiskverkunar er sekkjaður veit ég ekki.  Ekki minnist ég þess að hafa heyrt um fjöldadauðsföll vegna saltfisksáts.