20 ágúst 2012

Sumarfríum að ljúka, en ekki ESB kjaftæðinu.

Flestir eru nú að skreiðast úr sumarfríum sínum þessa dagana en Alþingismenn verða eitthvað áfram í fríi sem er bara gott en málþófið byrjar jafnharðan og þingmennirnir mæta til "vinnu" ef sá eðjuslagur sem stundaður er á Alþingi getur talist vinna. Það er ótrúleg lítilsvirðing sem þetta fólk sýnir þjóðinni sem greiðir því laun og ætlast til að hún (þjóðin) beri virðingu fyrir þessu háttarlagi.

Öll höfum við sem komin eru eitthvað frameftir æfinni séð ýmislegt frá þessu fólki sem við kusum og treystum til að standa við það sem sagt var fyrir kosningar. Það hefur bara versnað ár frá ári, ekkert er orðið að marka það sem sagt er og er ömurlegt að sjá þetta fólk reyna að snúa út úr eigin kosningaloforðum. Í þessu sambandi má nefna að flestir þingmenn VG sögðu fyrir og strax eftir síðustu kosningar að þeir teldu íslandi betur borgið utan ESB enn innan.

Þegar þau svo fóru í að mynda stjórn með krötum köstuðu þau þessari sannfæringu sinni fyrir róða og fóru að tala um að þjóðin ætti að fá að kjósa um tilvonandi ESB-samning og þá spyr maður hvar bað um það? Ekki var það þjóðin. Þetta er búið að kosta almenning (skattgreiðendur) milljarða króna og engin endi virðist á þeim ósköpum. Nú rétt fyrir kosningar rjúka menn upp til handa og fóta og segja að best sé að hætta við þetta allt eða fresta þessum viðræðum fram á næsta kjörtímabil, var þetta það sem VG lofaði fyrir síðustu kosningar að þjóðin ætti að standa í viðræðum við ESB næstu tvö kjörtímabil með ærnum tilkostnaði? Nei, hættið þessum viðræðum strax, hættið þeim endanlega núna.

Fiskveiðifrumvarp (kvótafrumvarpið) VG er alveg óskiljanlegt og alger svik við kjósendur flokksins það stóð til að innkalla kvótann og úthluta honum aftur en þá fyrir sanngjarna greiðslu eða leigu (Fyrning/innköllun)  og virtist þetta sjónamið vera uppi, einnig hjá krötum já og öllum þorra landsmanna. En aldrei var talað um 40 ára úthlutun til núverandi kvótahafa fyrir kosningar, ekki minnst á slíkt. Það er óhugnanlegt hve lítið frambjóðendur til þings okkar leggja uppúr því að standa við það sem þau segja fyrir kosningar og er í stefnuskrám flokka þeirra, þeir gefa algera skít í kjósendur með þessu framferði, ömurlegt er svo að horfa upp á þetta fólk snúa út úr öllu sem það sjálft sagði við okkur lýðinn sem kaus það, minnir á Forsetann sem sagðist ætla að snúa sér til annara starfa, það heyrðu allir hann segja þetta í áramótaávarpinu sínu, hann talaði skýrt en honum tókst samt að snúa svo rækilega út úr þessum orðum að þau þýddu að að hann ætlaði að halda áfram í embætti í fjögur ár???

13 júlí 2012

Enn eru menn að tala um evru sem gjaldmiðil hér?


Það er nánast eða alveg óskiljanlegt að menn skuli en vera að tala um evru sem gjaldmiðil á Íslandi, fylgjast menn ekkert með þróuninni í Evrópu? Við værum algerlega gjaldþrota ef við hefðum verið með evru í hruninu, það hljóta allir hugsandi menn að sjá, Það er eins og menn átti sig ekki á að ef við hefðum verið með evru hefðum við þurft að bjarga öllum bönkunum hér á landi eins og verið er að reyna úti í Evrópu núna og mun ekki ganga að mínu mati margir þeirra munu fara á hausinn með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning í þeim löndum þar sem það gerist  því ekki geta ríkisstjórnir þeirra landa tryggt innistæður á reikningum eins og hér var gert, innistæður á Íslandi voru að stærstum hluta í íslenskum krónum og allt hagkerfið líka þess vegna gat ríkið hér prentað krónur til að við gætum áfram átt okkar innistæður (sem ég átti engar) og eytt þeim í mat og aðrar nauðþurftir þó svo við þyrftum að fá hjálp til að kaupa erlendar nauðsynjar og vörur sem hækkuðu svo í verði, þá gekk kerfið, við fengum útborgað og ríkið fór ekki á hausinn eins og allt stefnir í hjá mörgum löndum Evrópu einmitt þar sem evran er við líði. Ég er ekki búinn að sjá Þjóðverja taka því þegjandi að borga alla óráðsíu evrópubúa einir og sér eins og allt stefnir í að verði að vera ef bjarga á evrunni, því engin önnur þjóð á þá fjármuni sem til þarf nema þá frakkar sem eru miklu tregari til að borga neyslu annara.
Og svona "til sidst"  Af síðum Visis.is

"Danir spara sér þúsundir milljarða á að vera utan evrunnar
Danskir hagfræðingar hafa reiknað það út að Danir hafi sparað sér þúsundir milljarða króna með því að halda sig fyrir utan evruna.

Fjallað er um málið í Jyllands Posten en þar segir að ef Danir hefðu verið með evruna sem mynt undanfarin 12 ár hefði það þegar kostað þjóðarbú þeirra 338 milljarða danskra króna eða sem svarar til rúmlega 7.000 milljarða króna.


Christian Björnskov lektor í hagfræði við viðskiptaháskólann í Árósum segir að það hafi verið snjall leikur hjá Dönum að taka ekki upp evruna í upphafi og síðan enn snjallara að forðast hana eftir það.


Í fyrrgreindi upphæð er m.a. að finna 87 milljarða danskra króna sem Danir hefðu þurft að borga inn í ESM, hinn sérstaka björgunarsjóð evrusvæðisins og 156 milljarða danskra króna sem Danir hefðu þurft að ábyrgjast í Evrópska seðlabankanum fari svo að eitt af evrulöndunum verður gjaldþrota.


Björnskov segir að engin önnur lönd en evrulöndin geti borgað reikninginn vegna vandamálanna á evrusvæðinu og Danir sleppi við þann bagga með því að hafa haldið í krónuna sína."

04 júlí 2012

Forseti vor, klappstýran og hrokagikkurinn!!


Nú eru nokkrir dagar frá forsetakosningunum og virðist Forsetinn vera hættur í bili að gefa út tilskipanir um hvernig hann ætlar að standa að embættisfærslu sinni þangað til hann gerir okkur þann greiða að koma sér burtu úr embættinu en hann segist geta verið í embætti eins lengi og honum þóknast. Allt er þetta nú skrítið, ég kaus hann fyrir 16 árum en síðan kaus ég ekki fyrr en nú en þá til að losna við hann úr embætti sem ekki tókst í þetta sinn en ég mun reyna aftur. Það sem veldur mér hugarangri er að Davíð Oddsson skuli nú vera hans aðal stuðningsaðili og náttúrulega náhirð hans öll (framsókn innifalin) sem æfinlega fylgir foringja sínum í öllum vondum málum og þessu líka. 

Það er kannski ekki mikil reisn yfir þessu hjá mér sem kaus manninn á sínum tíma 1996 en ég tel mig hafa það mér til málsbóta að hann leit óneitanlega vel út með eiginkonu sína þá fyrri sér við hlið. En eftir að hún lést fór sjarminn af honum að mínu mati og versnaði mikið og fljótt þegar sú nýja kom til sögunnar. Það er ekki henni að kenna, hún er ágæt og ekkert upp á hana að klaga síður en svo. Hann fór að fara í útreiðatúra og á skíði, beinbrjóta sig hvað eftir annað og sýnist mér hann hættur þessi monti og gengur nú bara kraftgöngu á Berssastaðatúninu og held ég að það hæfi gömlum manni ágætlega.

En gamli karlinn virðist hafa misskilið eitthvað í ferlinu því hann umturnaðist og breyttist í svokallaða klappstýru fyrir útrásina og græðgina sem geisaði á árunum fyrir hrun, ég fullyrði að það hefði aldrei gerst ef Guðrúnar Katrínar hefði notið við, en nýja konan er vellauðug og svo miklu yngri en hin virðulegi Forseti sem gæti haft áhrif á hégómagirndina hjá gömlum manni, sjötugum.

Forsetinn virðist hafa verið lostin eldingu um leið og hann krækti í þessa ungu og fallegu konu sem nú á að vera „öryggisventillinn“ okkar gagnvart ruglinu sem hefur heltekið aumingja manninn. Mér sýnist við eiga eftir að sitja uppi með Forseta sem mun reyna að sölsa undir sig vald sem honum ekki ber og engin hefur beðið hann um að fara með. Hann ætlar, til að mynda, að stjórna því hvernig stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands á að líta út, en það hefur engin beðið hann um það svo ég viti og held ég að það muni renna tvær grímur á suma sem kusu hann núna þegar hann fer að káka í stjórnarskránni með það í huga að auka völd sín og embættisins en þar liggur hans áhugasvið. 

Ég sé fyrir mér svipinn á Davíð þegar hann setur fiskveiðistjórnunarfrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu en Steingrímur kann á Forsetann og mun bara hafa frumvarpið í samræmi við það, það er að segja það sem þjóðin vill, innkalla heimildirnar og úthluta þeim aftur með gjaldtöku og þannig verður þá frumvarpið væntanlega. 

Íhaldið segist ætla að afnema veiðleyfagjaldið strax og þeir komast í ríkisstjórn en Ólafur mun ef að líkum lætur setja þau lög strax í þjóðaratkvæði og það mun þjóðin fella með miklum meirihluta, en Forsetinn hefur talað og sagt að þetta mál  sé sérsniðið fyrir þjóðaratkvæði og verður minntur á það, því hann segist hafa talað skýrt.

31 maí 2012

Fær þjóðin að kjósa, ég efast um það.


Ég er ekki viss um þessa stundina að við þjóðin fáum að kjósa um ESB aðild a.m.k. ekki bindandi kosningu. Írska ríkisstjórnin sem sætti sig ekki við NEI við inngöngu lét kjósa, eftir mikinn áróður, aftur til að ná Jáinu sem stjórnina (ekki þjóðina) þyrsti svo í, allir vita hvernig fór, sama gæti auðveldlega gerst hér eða bara segja "kosningin er ekki bindandi fyrir Alþingi" og er því marklaus.

Íslenskum stjórnmálamönnum er ekkert heilagt þeir neituðu að gefa þjóðinni kost á að kjósa um inngöngu í Nató um árið og eins þegar  EES samningnum var troðið upp á okkur án umræðu að heitið geti, því var haldið fram að samningurinn væri svo flókin að venjulegt fólk skildi hann ekki og honum troðið gegnum þingið.

Það eru að poppa upp miklir lagabálkar enn þann dag í dag sem sagðir eru í EES samningnum en hafi aldrei verið teknir yfir en nú verðum við að gera það annars vill ESB ekkert við okkur tala. Þannig halda þessi landráðaöfl sem stjórna landinu okkar að smá ýta okkur inn í þetta Evrópusamband sem þjóðin vill ekki vera í, alls ekki. Muna skulum við að fljótlega verður farið að tala um þessa IPA mútur sem algöra nauðsyn fyrir okkur og svo verður sagt, ef þið (fíflin ykkar) kjósið ekki rétt þá munum við þurfa að borga múturnar til baka og það engar smá, munum þetta!!!!! Athugum það að eftir næstu kosningar gætu stjórnarflokkarnir með stuðningi smáflokkana sem nú verða til, komist til valda og munu þá segja eins og nú "við verðum að klára þetta ESB mál og kjósa síðan um niðurstöðuna", hafa menn heyrt þenna áður??

 Það er jafnvel farið að læðast að mér æ oftar að kjósa íhaldið eða framsókn  og vona að þeir flokkar komist að eftir næstu kosningar og stöðvi þetta ferli í eitt skipti fyrir öll. Öðruvísi mér áður brá, íhaldið og framsókn voru alls ekki í myndinni þvert á móti en það þíðir ekki að berja hausnum við steininn það verður stundum að gera það sem þarf til að mál fari á þann veg sem maður vill og trúir að sé best fyrir þjóðina, en mér býður við að gera þetta en nauðsyn brýtur lög.....

25 apríl 2012

Vaðlaheiðargangnagerðamannaverkstjóralyklakippuhringurinn.


Vaðlaheiðargöng eru nú í umræðunni og sýnist sitt hverjum, Kristján Möller segist aukast "gubbupestin" við að heyra til sam þingmanna sinna og þá náttúrulega þeirra sem ekki vilja að ríkið sé í ábyrgð fyrir framkvæmdinni en eigendurnir verði einhvert einkahlutafélag sem svo þjóðnýtir tapið og hirðir gróðann. Hvað þyrfti þessi Kristján Möller að verða gamall til að sjá hversu galið svona fyrirkomuleg er. 

Ef kostnaðaráætlun stenst og allt er eðlilegt myndu fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir ekki þurfa ríkisábyrgð á verkinu en svo er ekki kostnaðaráætlanir í þessum verkum fara yfirleitt 50% framúr áætlunum og þess vegna vilja lánveitendur ríkisábyrgð svo einfalt er það. 

Steingrímur J. og þessi Kristján virðast eingöngu vera að hugsa um að koma nokkrum búkollum og gröfum í vinnu í kjördæminu því svona framkvæmdir eru ekki mannfrekar með tilliti til hversu mikið fé fer í þetta. Ég held að ælupestin hjá mér fari vaxandi þegar ég heyri minnst á þetta fyrirbær, það má vel vera að þessi göng séu arðbær framkvæmd og þá á ríkið að eiga hana og reka en svo mega einkahlutafélög líka eiga hana fyrir mér en þá á ríkið ekki að koma nálægt verkinu. 

Fjármálaráðherrann  (ráðfrúin) virðist vera mjög hlynnt þessu rugli og segir það þá sína sögu um hana og hvernig þetta kjördæmapot virkar bæði Steingrímur og Möllerinn eru úr þessu kjördæmi og berjast hatramlega fyrir þessu og segir það líka sína sögu um þá kumpána, ekkert hefur breyst og mun ekki gerast meðan þessir gömlu kjördæmapotarar eru á þingi. En ég er að verða þreyttur á þessari langloku sem þetta gangna kjaftæði er orðið og minnist þess þegar við sem börn vorum að leika okkur að búa til löng orð sem gæti litið svona út í dag Vaðlaheiðargangnagerðamannaverkstjóralyklakippuhringurinn.

24 apríl 2012

Landsdómur - fárálegur og sprenghlægilegur!!!


Það er ekki skrítið þó þessi þjóð okkar lendi í hremmingum eins og bankahruni þegar henni er stjórnað af öðrum eins gáfnaperum og birtust okkur á sjónvarpsskjám landsmanna í gær eftir uppkvaðningar  dóms í landsdómsmálinu svokallaða  gegn Geirs Haarde . Þar gaf að líta ofalin ríkisstarfsmann sem aldrei hefur gert neitt nema sjúga spenann alla sína æfi. 

Hann hreytti út úr sér svívirðingum í allar áttir og bar dómstólnum á brýn að hafa látið pólitík ráða dómsniðurstöðunni og þar langa mig að vera honum sammála ef svo hefur verið en á öðrum forsendum en hann. Hafi pólitík komið inn í þennan dóm kom hún frá Geir og hans liði því hann var næstum sýknaður af öllu því sem þjóðin veit að hann gerði en sakfelldur fyrir eitt atriði sem verður að teljast góð niðurstaða fyrir hann, að mínu mati hafa stórkostlegar árásir snatthundanna hans Geirs á saksóknarann, dómaranna og þingmannanefndina sem gaf út ákærurnar hafi stórskaðað málið allt, enda tilgangurinn sá eini að hafa áhrif á dómarana og dóminn í heild sinni. Flokkurinn hans Geirs hefur klíkað mörgum dómurum úr sínum röðum inn í dómakerfið á undanförnum áratugum og hljómar nánast sprenghlægilega að tala um að einhverjir aðrir hafi „laumað pólitík“ inn í réttinn bakdyramegin, það hafa þeir sjálfir gert.

Það var líka sprenghlægilegt að sjá Geir koma leiðandi konuna sína hönd í hönd og á eftir fylgdu öll börnin 5 og tengdabörnin fylktu liði gott ef ekki barnabörnin líka, það skildi þó aldrei hafa verið „Show“ sem hann sakar aðra um að viðhafa í þessu máli. Mér varð allavega hálf bumbult að horfa uppá þetta, konuna hanns og alla elítuna úr flokknum kyssa og klappa Geir eftir að þessi „fáránlegi og sprenghlægilegi“ dómur var kveðin upp og gott ef sumir felldu ekki (gleði) tár í þokkabót.

Máli sínu til stuðnings lúsleitaði hann svo að einhverju á Steingrím J. Og fann loks mál frá 1990 þar sem Steingrímur átti að hafa selt jarðarskika í Ölfussinu án þess að hafa leyfi til þess en þetta var ríkisjörðin Kirkjuferjuhjáleiga, Sjálfstæðismenn eins og hann sagði, björguðu honum út úr vanræðunum, samþykktu leyfi til sölunnar eftir á og fannst honum að þetta „góðverk“ þeirra dæmi um að þeir hjálpuðu samstarfsmönnum sínum gagnstætt því sem Steingrímur og hans fólk gerðu, þau kærðu samstarfsmenn sína fyrir smá yfirsjónir eins og bankahrun og ICE-save . Nú spyr ég, var það löglegt að „hjálpa“ Steingrími út úr klúðrinu eftirá, ég tel það borðliggjandi að þeir hafi bætt einu lögbroti ofan á annað og óskiljanlegt af hverju hann var að rifja þessa lögleysu upp og spurning hvort það sé of seint að kæra þá kumpána fyrir þetta athæfi og kannski senda það til mannréttindadómstólsins til meðferðar þar sem þeir hafa greinilega brotið jafnræðisregluna með þessu.

15 apríl 2012

Fundur um landbúnaðarmál í boði ESB-krata og prófessora þeirra


Kratar héldu ráðstefnu í fyrradag (13.4.) að Bifröst í Borgarfirði, þar á að ræða nýtt landslag í landbúnaði og nýjar áskoranir. Þar er einn mesti, ja hvað skal segja, „landbúnaðarsérfræðingur“ landsins hagfræðiprófessorinn sem talar nánast ekki um neitt nema landbúnað og hversu hrikalega óhagkvæmur hann sé, þó svo hann tilheyri óhagkvæmasta háskólasamfélagi heims (minnstakosti 5 háskólar í 300.000 manna samfélagi) og þetta er auðvitað allt greitt af okkur skattgreiðendum eins og vera ber en við höfum bara ekkert um það að segja hve margir og óhagkvæmir háskólar eru reknir í landinu. Það er ekki meiningin að deila á háskólana enda hef ég ekkert vit á þörfinni frekar en prófessorinn á landbúnaði. Prófessorinn segir að það verði að hætta þessari smábýlarómantík og stækka búin til muna til að ná fram hagkvæmni.
  
Ég hef unnið í kjúklingageiranum í um 35 ár og þekki það allvel til og þar er þessu alveg öfugt farið, stóru búin hafa í áratugi verið rekin með tapi og gjaldþrotum endalaust lent í eigu bankana hvað eftir annað og það löngu fyrir hrun. Við sem smærri erum höfum mátt keppa endalaust við fyrirtæki sem bankarnir hafa afskrifað skuldir af og endurfjármagnað mörgum sinnum og rekið árum saman sjálfir. Þessi háttur hefur veðið hafður á í svínaræktinni líka, gjaldþrot þeirra stóru aftur og aftur a.m.k. flestra stóru búanna. Þetta form hefur líka þekkst í eggjaræktinni þó í minna mæli sé.

Ég get ekki ímyndað mér að það verði öðruvísi í kúa og sauðfjárrækt verði þar örfá stór og stórskuldug bú. Mér finnst að prófessorinn ætti að kynna sér skuldastöðu stórubúanna í kjúklinga, svína og eggjaræktinni áður en hann fullyrðir að það muni koma „hefðbundnu“ búgreinunum til góða að stækka búin.Einnig mætti hann kynna sér hve oft þau hafa farið á hausinn og verið endurreist. Það hefur verið mjög líkt mynstur í ESB löndunum, stóru búin hafa farið umvörpum á hausinn og verið endurreist og farið aftur á hausinn þetta er alþekkt í þessum búgreinum í Evrópu allri en smærri búin hafa staðið sig betur.

Það er engin hagkvæmni í stórum búum það kennir reynslan okkur, aðalatriðið er hvernig búin standa hvað varðar fjármögnum þ.e. að þau skuldi ekki meira en þau fái risið undir en það hefur ekki verið mikið spáð í það hingað til bara keyrt á því að allt stórt sé gott, svona eins og var alsiða á græðgisárunum 2003-2007 og allir eða flestir vita hvernig það fór. Ég fullyrði og get staðið við það að ef stórubúin ná inn fyrir kostnaði hjá sér þá stór græða smærri búin.