04 júlí 2012

Forseti vor, klappstýran og hrokagikkurinn!!


Nú eru nokkrir dagar frá forsetakosningunum og virðist Forsetinn vera hættur í bili að gefa út tilskipanir um hvernig hann ætlar að standa að embættisfærslu sinni þangað til hann gerir okkur þann greiða að koma sér burtu úr embættinu en hann segist geta verið í embætti eins lengi og honum þóknast. Allt er þetta nú skrítið, ég kaus hann fyrir 16 árum en síðan kaus ég ekki fyrr en nú en þá til að losna við hann úr embætti sem ekki tókst í þetta sinn en ég mun reyna aftur. Það sem veldur mér hugarangri er að Davíð Oddsson skuli nú vera hans aðal stuðningsaðili og náttúrulega náhirð hans öll (framsókn innifalin) sem æfinlega fylgir foringja sínum í öllum vondum málum og þessu líka. 

Það er kannski ekki mikil reisn yfir þessu hjá mér sem kaus manninn á sínum tíma 1996 en ég tel mig hafa það mér til málsbóta að hann leit óneitanlega vel út með eiginkonu sína þá fyrri sér við hlið. En eftir að hún lést fór sjarminn af honum að mínu mati og versnaði mikið og fljótt þegar sú nýja kom til sögunnar. Það er ekki henni að kenna, hún er ágæt og ekkert upp á hana að klaga síður en svo. Hann fór að fara í útreiðatúra og á skíði, beinbrjóta sig hvað eftir annað og sýnist mér hann hættur þessi monti og gengur nú bara kraftgöngu á Berssastaðatúninu og held ég að það hæfi gömlum manni ágætlega.

En gamli karlinn virðist hafa misskilið eitthvað í ferlinu því hann umturnaðist og breyttist í svokallaða klappstýru fyrir útrásina og græðgina sem geisaði á árunum fyrir hrun, ég fullyrði að það hefði aldrei gerst ef Guðrúnar Katrínar hefði notið við, en nýja konan er vellauðug og svo miklu yngri en hin virðulegi Forseti sem gæti haft áhrif á hégómagirndina hjá gömlum manni, sjötugum.

Forsetinn virðist hafa verið lostin eldingu um leið og hann krækti í þessa ungu og fallegu konu sem nú á að vera „öryggisventillinn“ okkar gagnvart ruglinu sem hefur heltekið aumingja manninn. Mér sýnist við eiga eftir að sitja uppi með Forseta sem mun reyna að sölsa undir sig vald sem honum ekki ber og engin hefur beðið hann um að fara með. Hann ætlar, til að mynda, að stjórna því hvernig stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands á að líta út, en það hefur engin beðið hann um það svo ég viti og held ég að það muni renna tvær grímur á suma sem kusu hann núna þegar hann fer að káka í stjórnarskránni með það í huga að auka völd sín og embættisins en þar liggur hans áhugasvið. 

Ég sé fyrir mér svipinn á Davíð þegar hann setur fiskveiðistjórnunarfrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu en Steingrímur kann á Forsetann og mun bara hafa frumvarpið í samræmi við það, það er að segja það sem þjóðin vill, innkalla heimildirnar og úthluta þeim aftur með gjaldtöku og þannig verður þá frumvarpið væntanlega. 

Íhaldið segist ætla að afnema veiðleyfagjaldið strax og þeir komast í ríkisstjórn en Ólafur mun ef að líkum lætur setja þau lög strax í þjóðaratkvæði og það mun þjóðin fella með miklum meirihluta, en Forsetinn hefur talað og sagt að þetta mál  sé sérsniðið fyrir þjóðaratkvæði og verður minntur á það, því hann segist hafa talað skýrt.

Engin ummæli: