Mér er að verða það nokkuð ljóst að ég fæ ekki eina einustu krónu frá
lífeyrissjóðnum (sjóðunum) mínum nú í vor þegar ég verð löggiltur. Umræðan
undanfarið hefur fært mér sanninn um það svo ekki verður um villst, allt um
fram 70.000 kr á mánuði verður gert upptækt þ.e.a.s. tryggingastofnun greiðir mér
174.000 kr á mánuði eins og þeim sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð. þetta
er lágmarks framfærslukostnaður að mati hins opinbera og þess vegna hirðir það
opinbera allt að 70.000 á mánuði frá sjóðnum mínum en mér skilst að það sé
nálægt þeirri upphæð sem mér ber frá sjóðnum og þó tæplega, ef ég hins vegar hafði verið hátekjumaður þá fengi ég það sem er umfram þennan 70.000 kall, alltaf sama hliðin upp á teningnum, þeir sem meira mega sín fá alltaf meira en við aumingjarnir sem verðum að lifa á hungur lús en lífeyririnn sem við vorum skildug að safna er hirtur "complet"
Ég hef greitt í lífeyrissjóð frá stofnun þeirra að undanskildum námsárunum.
Þetta segir að ég hef verið láglaunamaður alla tíð skilst mér, held reyndar að sjóðirnir hafi brunnið upp fyrstu árin á verðbólgubálinu, en þó hefur mér
tekist að lifa en ekki við neitt ríkidæmi en lifað hef ég og skulda engum
neitt, síðustu ár, tókst loksins að greiða upp lánin sem ætti að vera huggun
fyrir þá sem eru andvaka vegna skuldasúpu, það hef ég eins og flestir reynt á
eigin skinni. Hef gengið gegnum margar kollsteypur í þessu peningadrifna
samfélagi okkar svo sem, myntbreytingu "tvö núll af reddinguna", upptöku
verðtryggingar og óðaverðbólgu í kjölfarið árum saman eftir það, sem skapaði "68
kynslóðarfárið", en samt hafðist þetta fyrir rest með því að vera í tveimur
vinnum stundum þremur og konan útivinnandi eftir að elstu börnin komust
á legg og gátu gætt þeirra yngri, sem myndi sennilega teljast óhæfa í dag.
Menn segja, sumir að minnstakosti, að verðtrygging sé nauðsynleg til að bæta
lánadrottnum rýrnun útistandandi skulda vegna verðbólgu, en verðtryggingin slævir hinsvegar löngun
stjórnmálamanna og seðlabanka til að taka nauðsynlegar en erfiðar ákvarðanir
þar sem skaði fjármálakerfisins verður lítill sem engin af röngum, engum eða
beinlínis skaðlegum ákvörðunum, sem svo oft hafa á okkur dunið.
Allar þær milljónir sem ég hef greitt í lífeyrissjóð (i) skipta mig engu
máli, akkúrat engu þegar nú kemur að útgreiðslu, þeir sem aldrei greiddu, komu
sér hjá því að greiða, fá nákvæmlega jafnmikil (lítið). Ég er ekki að tala um
sjúkt fólk eða öryrkja þeir eiga að fá a.m.k. lágmarks framfærslu (ríkis
reiknaða) en mér finnst að ég eigi að fá örlítið meira en þeir sem komu sér
undan því að borga í lífeyrissjóði og þeir eru margir á mínum aldri af mörgum
ástæðum, til dæmis voru svokallaðir einyrkjar, þeir þurftu ekki að greiða í
sjóði í upphafi en svo var því breytt en menn borguðu samt ekki.
Svo voru
heimavinnandi konur, húsmæður, sem borguðu eðlilega ekki í fyrstu, en í dag
hefur þetta breyst flestir greiða í lífeyrissjóð. Þess vegna finnst mér að
þessi eignaupptaka sem ríkið leyfir sér, eins og ég nefndi hér ofar, sé
óþolandi því eftir nokkur ár um 2020 segja sérfræðingarnir sem allt segjast vita
mun þetta breytast og sjóðirnir geta greitt hærra hlutfall og þá ef ég lifi fæ
ég kannski örlítið meira en nú er í boði. En það fer eftir því hverjir og hvernig landinu og ríkissjóði er stjórnað, hvort hér verður "ný frjálshyggja" eða "norræn velferðarstjórn".
En við þessir aular sem við erum og með gullfiskaminni í þokkabót, kjósum
þennan lýð vil ég segja, yfir okkur aftur og aftur og það mun gerast fljótlega
að Bjarni Vafningur Benediktsson verður forsætisráðherra í boði okkar fávitanna
og þeir eru eru byrjaðir að stilla upp. Þorgerður "hægri 7"
Gunnarsdóttir Tryggvi "Askar Capital" Herbertsson, Illugi "sjóður9"Gunnarsson,
Davíð "frá Svörtuloftum síðar Hádegismóri" Oddsson og fleiri og
fleiri hrunstjórar fá góðar stöður og ráðherraembætti hjá okkur fávitunum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli