Þá er helgin liðin og ekkert meira um það að segja nema að ég fór í sextugsafmæli í gær og voru þar fínar veitingar margar brauðtertur og rjómatertur ásamt ýmsu öðru. Ég er hinsvegar vanur því að menn helli gesti sína fulla þegar þeir verða sextugir, en reyndar vissi ég það fyrir fram í þessu tilfelli að ég kæmi jafn ófullur úr veislunni eins og ég fór í hana. En það var svolítið skrítið að í morgun virtust taka sig upp gamlir timburmenn því það var ekki laust við að ég væri með höfuðverk eins og ég fæ eftir önnur sextugsafmæli. Þetta segir mér að það er sama hvað þú drekkur og étur ef þú gerir það í óhófi þá færðu eftirköst, kaffi í óhófi er ekki betra en annar vökvi hvað þetta snertir og þó kannski örlítið....
En fyrripart gærdagsins var ég að gera það sem ég hef verið að gera þ.e. leika mér í skúrunum mínum og horfa á kjúklingana mína éta mig út á gaddinn, síðast en ekki síst skemmta mér með hundinum honum Salómon. Á laugardaginn fékk ég hinsvegar afa strákana mína, bræðurna tvo í heinsókn það langt síðan þeir komu síðast eða um tvær vikur. Það var stuð á þeim eins og vanalega og hressandi að fá fólk í heimsókn sem hreyfir sig svolítið.
Rauðvínið er orðið mjög gott (að mínu mati) og hefur lækkað örlítið í kútnum síðan um síðustu helgi og er mér það mikil ráðgáta því ég hef bara rétt smakkað á kútnum:->
Logi
Engin ummæli:
Skrifa ummæli