03 september 2005

Bílskúrs vera.

Ég var úti í bílskúr í næstum allan dag, var að mála veggi og vinna við þakið að innanverðu, byrjaði að einangra það, í “lager” húsinu mínu sem er endinn á svokölluðu heimahúsi og upphitað með hitaveitunni minni, þar geymi ég allt dótið mitt (gullstykkin) sem sankast hefur að mér undanfarin 30 ár eða lengur. Þarna verður margt “gullstykkið” geymt næstu ár eða þangað til að næst verður gerð “rassía” í að henda. Í fyrra sumar tókum við mikið æði og rifum tvo bragga falla af gersemum og hentum öllu sem í þeim var og meiru til, brenndum timbri í stórum bálkesti, í mikilli grillveislu sem haldin var, hentum járnarusli og dekkjum í gáma sem Hringrás lét okkur í té, tveir 20 feta gámar kjaft fullir af rusli eða gulli, eftir því hvernig á það er litið, fór í hauginn hjá Hringrás sem reyndar brann stuttu síðar. Sem sagt ég er búinn að eyða heilum degi í að lagfæra hús, gagngert til að geyma í því rusl að flestra mati en er gull í mínum augum, að minnsta kosti ennþá. Ég á langt í land með að klára “lager plássið” en þetta smá kemur.

Rauðvínið mitt er á fullu og sendir frá sér loftbólur upp um vatnslásinn í gríð og erg, svo litlu gerlarnir mínir eru að vinna hörðum höndum við víngerðina mína á lágum launum.

Sunna og Addi komu í heimsókn með nýbakaða ostaköku sem reyndist afar bragðgóð og hvarf að stærstum hluta á “nótæm”.
logi

Engin ummæli: