Við fórum og skoðuðum ljósmyndasýninguna hans Ragnars Axelssonar (rax) á Austurvelli. Það var síðasti sýningadagurinn í dag svo ekki var seinna vænna að fara, veðrið var mjög gott miðað við árstíma um 13 stiga hiti og logn. Myndirnar eru af fólki á Grænlandi, Færeyjum og Íslandi og sýna aðstæður þessa fólks og sjálfsþurftarbúskapinn sem það stundar. Í útvarpinu áðan var viðtal við Þorvald Gylfason hagfræðiprófsor um námskeið sem hann er að halda þessa daganna og var hann að segja frá efni námskeiðsins og nefndi þar að farið yrði í mál eins og “sjálfsþurftarbúskap sem væri ávísun á fátækt” það er kannski rétt hjá hagfræðingnum að sjálfsþurftarbúskapur sé ávísun á fátækt en í sama útvarpi var sagt frá því að 35% íbúa New Orleans og bæjanna þar í kring sé fátækt fólk sem lifðir umdir fátæktarmörkum og stór hópur langt undir mörkunum, þó veit ég ekki til að sjálfsþurftarbúskapur sé mikið stundaður á þessu olíuauðuga svæði, heldur þvert á móti er þetta eitt kapítalíska svæði Bandaríkjanna og iðnaður hverskonar stundaður þarna í stórum stíl og margar olíuhreinsunarstöðvar eru þarna. Þegar talað er um fátækt er mér hugsað til ömmu minnar og afa sem eignuðust 8 börn og bjuggu í pínulitlu húsi á Stokkseyri og vantaði aldrei neitt ef ég man rétt, a.m.k. heyrði maður aldrei um það heldur þvert á móti. Nú kvarta allir og kveina hver um annan þveran yfir öllu og ekki síst skuldum og vöxtum, en eiga allt sem hugurinn girnist. Þetta segir manni að fátækt er afstætt hugtak því fátækt og fátækt er ekki það sama, munurinn er bara við hvað er miðað. Selveiðimaðurinn á Grænlandi þarf ekki 32” sjónvarp með surround hljóðkerfi, DVD-spilara og gervihnattamótakra af þeirri einföldu ástæðu að það er ekkert rafmagn í kofanum hans eða snjóhúsinu og þar með sparar hann sér raðgreiðslurnar og vextina af þessu dóti. Svo er það eitt í viðbót sem gerir það að hafa mikið umleikis í þessi lífi að það eru engir vasar á líkklæðunum sem maður er settur í þegar maður kveður þennan heim, þannig að það er erfitt að taka með sér aurana sem búið er að safna. Niðurstaðan er því sú að vinna eins lítið og hægt er en njóta frekar lífsins á sjálfbæran hátt þ. e. stunda sjálfsþurftarbúskap.
logi
Engin ummæli:
Skrifa ummæli