10 nóvember 2011

Krónan, bullið og ofstækið.

Ég er 100% Evrópusinni með stórum staf, en ekki evrópusambandssinni það er á hreinu ég er heldur ekki sjálfstæðismaður, framsóknarmaður né vinstri grænn en vinstrisinnaður samt og hef alltaf verið utan flokka og þar með frjáls maður og get sagt það sem mér sýnist  þegar mér sýnist án þess að vera með sjálfsritskoðun og horfa á allt í gegnum flokksgleraugu.

Það sem ég vildi sagt hafa varðandi það ofstæki sem tröllríður þessu krataliði á  blogginu er þetta, manni verður bara illt að lesa þetta bölvað ofstæki og yfirdrepshátt sem margir þessara kratabloggara viðhafa. Guðmundur Gunnarsson kenndur við rafiðnaðarsambandið gæti verið einn þeirra, en til að gæta sannmælis þá hefur hann margt til síns ágætis og er með all góða þekkingu á verkalýðsmálum og skárra væri það nú, hann hefur unnið við verkalýðsmál í áratugi, en þar ætti hann að halda sig og láta vera að þykjast vera sérfræðingur í evrópusambandinu og málefnum þess. Hann og fleiri "sérfræðingar" virðast nefnilega halda að ESB sé góðgerðarhreyfing sem vilji endilega fá litla Ísland í hópinn sinn af gæsku einni, þannig er það auðvitað ekki, við verðum rukkuð um hverja einustu krónu sem okkur er "gefin" með vöxtum.

Mikið held ég að þeir í Brussel hlæi dátt, ef þeir þá skilja eitthvað af því sem haldið er fram á "kratabloggunum" um gæsku þeirra. Því er til dæmis haldið  fram að ef við tökum upp evru og göngum í ESB muni seðlabanki bandalagsins standa við bakið á okkur alveg frítt, kostar ekki eina krónu og við spörum mörg hundruð ef ekki þúsund milljarða á því að þurfa ekki að eiga gjaldeyrisvarasjóð, hverslags bölvað rugl er þetta trúa menn þessu sjálfir, auðvitað ekki. Býr eitthvað að baki því að troða okkur í þetta bandalag með góðu eða illu? Já svo sannarlega held ég það, við það að ganga í ESB verður til fjölmenn elíta embættismanna sem verður handvalinn úr "já-hópnum" og fær mikil völd, sér um að framfylgja tilskipunum frá Brussel og að margfalda eftirlitsiðnaðinn,  sem mörgum þykir nóg um í dag en það er bara lítið sýnishorn af því sem koma skal.

Flestir á mínum aldri muna eftir "Marshall-hjálpinni" sem við fengum frá kananum og hverjir úthlutuðu henni, einnig munum við eftir "varnarliðinu" sem hingað kom og mokaði peningum inn í okkar litla efnahagskerfi en auðvitað í gegnum landráðaflokkana. Til þess var meðal annars stofnað verktakafyrirtæki (Íslenskir aðalverktakar/Sameinaðirverktakar) sem fekk/fengu alla vinnu fyrir herliðið og var þess kirfilega gætt að þar stjórnuðu íhaldsframsóknarkratar. Ekki ætla ég mér að útlista allt það sóðalega sukk og viðbjóð sem þar viðgekkst. Allir sem ekki voru með flokksskírteini í þessum viðbjóðslegu sukkflokkum gátu étið það sem úti frýs.

Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að íslenskir stjórnmálamenn eru þeir lang verstu í heimi en það lagast ekki við inngöngu í ESB, síður en svo því að í orði kveðnu skiptir ESB sér ekki af því hverjir eru kosnir og við munum áfram kjósa vonda stjórnmálamenn sem munu sukka sem aldrei fyrr og þá í boði ESB. Engin trúir í hjarta sínu að ESB leysi einhver mál hjá okkur, heldur eru margir orðnir þreyttir á þeim þjófalýð sem hefur stolið öllu steini léttara frá okkur og freistast til að halda ESB hjálpi okkur, en látum ekki blekkjast. Tóku menn ekki eftir þessari frétt sem sýnir að hið háa Alþingi er enn að setja lög sem eru gagngert til að vernda þjófa. Ég tel að við náum aldrei neinu af þessum skepnum heldur þver öfugt þeir munu ná af okkur öllu sem eftir er, svoleiðis er það bara, með eða án ESB aðildar.

Engin ummæli: