05 desember 2011

Reglugerðafargan og samhæfing

Þeir sem eru í því hlutverki að framleiða matvæli ofan í landsmenn eru ekki öfundsverðir þessa stundina og hafa kannski aldrei verið öfundsverðir. Það bókstaflega rignir yfir framleiðslugreinar matvæla reglugerðafargani frá ESB sem er í sumum tilfellum algerlega fáránlegt og með ólíkindum að vitiborið fólk hafi samið þetta bull sem í mörgum tilfellum þetta er. Allir sem tengjast matvælaframleiðslu hafa fundið fyrir þessum fáránleika undan farið, fáránleika segi ég vegna þess að sumt af þessu á hreinlega ekki við hér.

Þarna er farið fram með óskiljanlegar kröfur um eitthvað sem ekki skilar endilega betri vörum heldur er einhverskonar samhæfing við greinina í ESB löndum, svo fáránlegt sem það er, öll sláturhús og allar kjötvinnslur séu "eins" uppbyggð allstaðar en hefur ekkert með betri og heilbrigðari vörur að gera heldur samræming aðstöðu á samkeppnismarkaði sem sagt allir búi við sömu fullnægjandi eða ófullnægjandi kröfur um húsnæði og búnað. Ég undirstrika að vörurnar eru ekkert betri þó bætt sé við hurð hér og vegg þar og færðar til vélar, því allt byggist þetta á að þeir sem vinna við matvælin og bera á því ábyrgð, séu með hreinlæti og umgengni um hráefnið og starfsemina á hreinu, þar þjóna veggir og hurðir litlu hlutverki ef hitt vantar.

Það er spaugilegt eða kannski grátlegt að hingað komi fólk frá Brussel sérstaklega til að taka út greinina og segja til um hvar eigi að loka fyrir starfsemi og hvar náðasamlegast halda starfsemi áfram og hve marga veggi skuli setja hér og þar um vinnslusali. Þetta er spaugilegt vegna þess að sýkingar í matvælum og þar með fólki eru fráleitt færri í löndum ESB, þær eru mun fleiri og alvarlegri.  Og þar til viðbótar eru notuð efni í dýrafóður sem bönnuð eru hér, einnig er steranotkun í einhverjum mæli þó það sé bannað.

Margar skæðustu pestir í dýrum eru hreinlega fundnar upp í áratuga ef ekki aldagamalli  hefð í þrengslabúskap þessara landa veirur og bakteríur eru hreinlega nefndar eftir borgum, bæjum og vísindamönnum Evrópulanda. Mér finnst íslenskir eftirlitsstofnanir eins og Matís og Mast gera lítið úr sér og þeim sérfræðingum sem þar starfa að flytja inn fólk til að taka út matvælaiðnaðinn sem heyrir undir þær en bankarnir og aðrar miklu þjóðhagslega mikilvægar stofnanir s.s. tryggingafélög, heilbrigðisstofnanir, skólar og þess háttar, skuli íslendingum treyst til að fylgjast með, þrátt fyrir hrunið og þann pakka allan.

Ef matvælaiðnaðurinn hefði staðið sig eins illa og fjármálageirinn, svo ég tali nú ekki um stjórnmálamennina, hefði ég skilið þær ráðstafanir að biðja um erlendar eftirlitsstofnanir hingað til að taka út ósómann en þannig var því ekki farið, matvælageirinn hefur staðið sig vel í öllum megin atriðum a.m.k. þar sem ég þekki best til  eftir nærri 40 ára veru þar.

Svo bíta þessa ríkisstofnanir hausinn af skömminni með því að þiggja hundruð milljóna ef ekki milljarð frá ESB en þeir sem verða fyrir tuga milljóna kostnaði vegna upptöku reglugerðanna, matvælafyrirtækinn, fá engan styrk ekki krónu, heldur er ætlast til að þessi fyrirtæki ýti kostnaðinum út í verðlagið og það hafa menn séð undanfarna mánuði að er raunin og er rétt að byrja, trúið mér.

 Mín skoðun er að eini tilgangurinn með þessu öllu sé að veikja íslenska framleiðslu gagnvart innflutningi. Það eru margir ESB öfgamenn sem myndu fagna því mjög ef íslenskur landbúnaður legðist af og allt væri flutt inn. Það er að minstakosti ekki annað að heyra á þessu krata liði sem tröllríður allri umræðu í þessum málum, "allt svo dýrt á Íslandi og allt of háir styrkir til þessara djöf... bænda" Manni verður stundum illt þegar kratar geysast fram og koma með ýkju sögurnar frá ESB þar sem allt er svo gott og dæmi um það var þegar einn kratinn sem starfaði við "upplýsingaöflun í Brussel " fullyrti að í Belgíu væri nú aldeilis annað að versla í matinn þar fengjust "frjálsir kjúklingar sem gengju úti í guðs grænni náttúrunni en væru ekki framleiddir í búrum eins og á íslandi".

Þetta var sem sagt upplýsingafulltrúi sendur af íslenska ríkinu til Brussel til að upplýsa okkur fíflin um hve allt væri gott í ESB. En staðreyndin er sú að einginn kjúklingur er framleiddur  í búrum á íslandi, ekki einn einasti. Svo er það hitt að kjúklingar mega alls ekki ganga úti samkvæmt reglugerðum frá hinu sama ESB allavegana fengi ég ekki að selja kjúkling sem gengi úti, það er bannað. Fyrir utan að kjúklingar eru um 4,5 vikna gamlir þegar þeim er slátrað og þurfa 30-32 gr. hita fyrstu vikuna, 27 aðra vikuna, 25 þriðju vikuna og 20-22 eftir það, þannig að ekki væru margir dagar árlega á Íslandi sem nýttust í að setja fuglana út, en öðru máli gegnir í fyrirheitna sambandinu þar sem allt er svo gott og hlýtt.

Engin ummæli: