Maður getur leyft sér að skilja áhuga margra verkalýðsfrömuða og lífeyrissjóðarekenda, á að taka upp aðra mynt hér á landi en hvernig er hægt að gera það? Ekki má taka upp Evru nema að ganga fyrst í ESB en það vill þjóðin ekki, sýnist mér. Gert er grín að þeim sem nefna aðra mynt en Evru og það kallað að skipta um nafn á krónunni og hjálpi okkur ekki neitt. Jafnvel þó okkur tækist að sannfæra þjóðina um að ganga í ESB er óvíst að við fullnægðum nokkurn tímann skilyrðum ESB um efnahag og ríkisbúskap. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að skilyrðin yrðu okkur ofviða þ.e. við munum ekki uppfylla þau að minnsta kosti á næstu áratugum og sérstaklega ekki eftir að þau varða hert þegar ný löggjöf ESB um hallalausan ríkisbúskap, risa tryggingasjóð til hjálpar illastöddum ríkjum í Evrusamstarfinu ofl. taka gildi á næstunni.
Þetta Evrusamstarf vill ekki nein „bóluríki“ eins og Ísland sem aldrei hefur verið reknið eins og sjálfstætt ríki, heldur höfum við þegið ölmusur og mútur alla okkar lýðveldistíð frá fyrsta degi, hermang, stríðsskaðabætur (þær hæstu í heimi miðað við fólksfjölda þó hér hafi aldrei verið háð stríð) og fleira í þeim dúr. Nú ætlum við að ganga í ESB og reyna að fá þaðan styrki sem jaðarríki (Rural country), halda þannig áfram ölmusustefnunni. Ég tel að til langstíma og skamms sé líklegra til árangurs að við förum að nýta auðlindir okkar, fá arð af þeim, þær eru nú nýttar af fáum án arðgreiðslna sem nokkru nemur og gildir það um auðlindir bæði til lands og sjávar. Það gengur ekki að þjóð hagi sér eins og við höfum gert og ætlum greinilega að gera áfram, lifa á betli.
Það heyrist æ oftar að nú sé komið að sölu bankana, orkufyrirtækjanna og öllu því sem þjóðin á og er ný búin að bjarga frá gjaldþroti með erlendum lánum. Menn láta sér varla detta í hug að þessi verðmætu fyrirtæki verði seld ef til þess kæmi að ríkið losaði sig við þau, nei þau verða færð þeim útvöldu án greiðslu, þetta þekkjum við öll mjög vel. Enginn í þessu landi á fé til kaupana stórfyrirtæki nema lífeyrissjóðirnir en þeir eru brokkgengir og stjórnað af misvitrum mönnum í mörgum tilfellum sem væru til í að selja hverjum sem er hlutinn sinn, jafnvel erlendum vogunarsjóðum og glæpalýð, ef það sýnist gróðavænlegt og hentaði í því augnablikinu, það er að minnstakosti mín skoðun. Látum ekki stjórnmálamenn sem allt vilja selja/gefa, ekki villa okkur sýn og telja okkur trú um að allt sé betur rekið sé það í höndum útvalinna gæðinga, munum hvernig það var á græðgistímanum fyrir haustið 2008 og hvernig þessir snillingar klúðruðu öllu sem þeir komu nærri, hverju einasta fyrirtæki landsins eða þar um bil "DJÖFULSINS SNILLINGAR!!!!"
Engin ummæli:
Skrifa ummæli