22 febrúar 2012

ESB og blaðrarinn Össur Skarpi


Ég var að lesa greinar í Bændablaðinu (bls. 30 og 33 í 3. tölubl  2012) sem báðar fjalla um þessa dæmalausu umsókn um aðild að ESB. Það er ekki holt fyrir mann eins og mig að lesa svona nokkuð, allt virðist vera gert til þess að ekki verði aftur snúið þegar kemur að þjóðinni að fella sinn dóm. Þá munu heyrast viðvaranir frá ESB og ESB-sinnum um að felli þjóðin þennan samning muni hún verða af þessu og hinu og þurfi að endurgreiða háar upphæðir  sem hún hafi þegið á aðlögunartímanum sem reyndar átti að vera samningsferli. Síðan munu koma upp frasarnir um að við munum breytast í „Norður Kórea norðursins“  og lifa við sult og seyru ef við kjósum ekki rétt. Ekki má heldur gleyma áliti alþingis á þjóðinni, ekki brigði mér ögn þó okkur yrði sagt að þetta væri of flókið til að láta þjóðina dæma og hætta ætti við þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá myndu kratar stökkva fram og segja "mikið rétt þjóðin skilur ekki svona flókið mál sleppum þjóðaratkvæðagreiðslunni" og VG myndi segja "þetta er eitthvað sem alþingi ákveður og við styðjum það"

 Norðmenn fóru aðra leið þegar þeir fóru í sínar könnunarviðræður (tvisvar) og innleiddu ekkert sem ekki var í EES samningnum gangstætt því sem við gerum núna, þeir virtust geta tekið ákvörðun án þess að innleiða allt þetta bull sem við nú gerum og sitjum svo uppi með, undirritaða samninga og yfirtekna án þess að þjóðin hafi verið spurð og eftir að þjóðin segir NEI. Ekki er auðvelt að vinda ofan af þessu eftir á þar sem verið er að leggja mikla fjármuni bæðu frá okkur sjálfum og ESB sem þeir munu heimta til baka. Við þurfum ekki nema horfa á „Makríldeiluna“ til að sjá hvernig smáþjóð gengur að semja við þetta þetta bandalag fyrrverandi nýlenduríkja, ef það fær ekki sitt fram koma hótanir um alslags kúgun og þvinganir og þessar hótanir koma frá ýmsum aðilum innan sambandsins. Ég skora á fólk að lesa greinarnar sem ég minntist á hér að ofan, þær eru mjög góðar og lausar að mestu við fyrirfram gefnar forsendur heldur lýsa þessu eins og það er, finnst mér.

Össur segir í dag að evran sé "handan við hornið" og nú sé bara að halda áfram á fullu gasi og ganga þarna inn sem fyrst. En það er ljóst að við getur aldrei tekið upp evru ef ESB á að samþykkja það, þetta vita flestir, það er bara óskhyggja, evruna fáum við seint því fyrst þurfum við að koma ríkisbúskapnum í svo gott lag að ef okkur tekst það, þurfum við enga evru, þá getum við samið um að taka upp hvaða gjaldmiðil sem er án inngöngu í einhvert bandalag.

En hann Össur stórbullari mun fara að láta heyra oftar í sér um dásemdina sem bíður okkar eftir inngönguna í þetta skrímsli sem bandalagið er. Nótabene ESB er ekki búið til sem góðgerðarbandalag heldur þvert á móti sem bandalag stórra gamalla nýlenduríkja sem voru að tengja sig saman svo minni hætta væri á að þau réðust hvert á annað eins og gerst hafði oft öldum saman. Og það tókst útaf fyrir sig a.m.k. hafa þessi ríki verið til friðs síðan bandalagið var stofnað, bara staðið saman um að fara með heri sína til landa utan ESB.

Össur mun koma oftar og oftar fram með gullkornin sín eftir því sem nær dregur kosningum til að freista þess að ná okkur fíflunum til fylgis við sig og hindra að Lilja Mós nái af flokknum hans meira fylgi en orðið er, en hann þarf ekki óttast hana Lilju, hún mun skilja fljótt við flokkinn sinn og stofna nýjan, húm er nefnilega "flokkakljúfur sjálfrar náttúrunnar" eins og sagt var um annan "flokkakljúf", Hannibal Valdimarsson.

15 febrúar 2012

Enn og aftur um lífeyrissjóði

Mér er að verða það nokkuð ljóst að ég fæ ekki eina einustu krónu frá lífeyrissjóðnum (sjóðunum) mínum nú í vor þegar ég verð löggiltur. Umræðan undanfarið hefur fært mér sanninn um það svo ekki verður um villst, allt um fram 70.000 kr á mánuði verður gert upptækt þ.e.a.s. tryggingastofnun greiðir mér 174.000 kr á mánuði eins og þeim sem aldrei hafa greitt í lífeyrissjóð. þetta er lágmarks framfærslukostnaður að mati hins opinbera og þess vegna hirðir það opinbera allt að 70.000 á mánuði frá sjóðnum mínum en mér skilst að það sé nálægt þeirri upphæð sem mér ber frá sjóðnum og þó tæplega, ef ég hins vegar hafði verið hátekjumaður þá fengi ég það sem er umfram þennan 70.000 kall, alltaf sama hliðin upp á teningnum, þeir sem meira mega sín fá alltaf meira en við aumingjarnir sem verðum að lifa á hungur lús en lífeyririnn sem við vorum skildug að safna er hirtur "complet"

Ég hef greitt í lífeyrissjóð frá stofnun þeirra að undanskildum námsárunum. Þetta segir að ég hef verið láglaunamaður alla tíð skilst mér, held reyndar að sjóðirnir hafi brunnið upp fyrstu árin á verðbólgubálinu, en þó hefur mér tekist að lifa en ekki við neitt ríkidæmi en lifað hef ég og skulda engum neitt, síðustu ár, tókst loksins að greiða upp lánin sem ætti að vera huggun fyrir þá sem eru andvaka vegna skuldasúpu, það hef ég eins og flestir reynt á eigin skinni. Hef gengið gegnum margar kollsteypur í þessu peningadrifna samfélagi okkar svo sem, myntbreytingu "tvö núll af reddinguna",  upptöku verðtryggingar og óðaverðbólgu í kjölfarið árum saman eftir það, sem skapaði "68 kynslóðarfárið", en samt hafðist þetta fyrir rest með því að vera í tveimur vinnum stundum þremur og konan útivinnandi eftir að elstu  börnin komust á legg og gátu gætt þeirra yngri, sem myndi sennilega teljast óhæfa í dag.

Menn segja, sumir að minnstakosti, að verðtrygging sé nauðsynleg til að bæta lánadrottnum rýrnun útistandandi skulda vegna verðbólgu, en verðtryggingin slævir hinsvegar löngun stjórnmálamanna og seðlabanka til að taka nauðsynlegar en erfiðar ákvarðanir þar sem skaði fjármálakerfisins verður lítill sem engin af röngum, engum eða beinlínis skaðlegum ákvörðunum, sem svo oft hafa á okkur dunið.

Allar þær milljónir sem ég hef greitt í lífeyrissjóð (i) skipta mig engu máli, akkúrat engu þegar nú kemur að útgreiðslu, þeir sem aldrei greiddu, komu sér hjá því að greiða, fá nákvæmlega jafnmikil (lítið). Ég er ekki að tala um sjúkt fólk eða öryrkja þeir eiga að fá a.m.k. lágmarks framfærslu (ríkis reiknaða) en mér finnst að ég eigi að fá örlítið meira en þeir sem komu sér undan því að borga í lífeyrissjóði og þeir eru margir á mínum aldri af mörgum ástæðum, til dæmis voru svokallaðir einyrkjar, þeir þurftu ekki að greiða í sjóði í upphafi en svo var því breytt en menn borguðu samt ekki.

Svo voru heimavinnandi konur, húsmæður, sem borguðu eðlilega ekki í fyrstu, en í dag hefur þetta breyst flestir greiða í lífeyrissjóð. Þess vegna finnst mér að þessi eignaupptaka sem ríkið leyfir sér, eins og ég nefndi hér ofar, sé óþolandi því eftir nokkur ár um 2020 segja sérfræðingarnir sem allt segjast vita mun þetta breytast og sjóðirnir geta greitt hærra hlutfall og þá ef ég lifi fæ ég kannski örlítið meira en nú er í boði. En það fer eftir því hverjir og hvernig landinu og ríkissjóði er stjórnað, hvort hér verður "ný frjálshyggja" eða "norræn velferðarstjórn".

En við þessir aular sem við erum og með gullfiskaminni í þokkabót, kjósum þennan lýð vil ég segja, yfir okkur aftur og aftur og það mun gerast fljótlega að Bjarni Vafningur Benediktsson verður forsætisráðherra í boði okkar fávitanna og þeir eru eru byrjaðir að stilla upp. Þorgerður "hægri 7" Gunnarsdóttir Tryggvi "Askar Capital" Herbertsson, Illugi "sjóður9"Gunnarsson, Davíð "frá Svörtuloftum síðar Hádegismóri" Oddsson og fleiri og fleiri hrunstjórar fá góðar stöður og ráðherraembætti hjá okkur  fávitunum.

13 febrúar 2012

Lífeyrissjóðirnir og umræðan um þá.

Mikil umræða er nú í gangi um lífeyrissjóðina okkar og margir til kvaddir og misgáfulegir. Eitt les ég þó út úr þessari umræðu, menn skiptast aðallega í tvo hópa það eru þeir sem vilja að óbreytt ástand í verðtrygginga málum annarsvegar og svo hins vegar þeir sem vilja verðtrygginguna burtu og að sjóðirnir gefi skuldurum eftir hluta af eða allar verðbæturnar frá hruni og lækki skuldir sjóðfélagana sem því nemur. Auðvelt er að vera sammála báðum hópum og skilja afstöðu þeirra beggja.

Vitringarnir sem telja sig þá einum réttbæru til að fjalla um sjóðina (sáust í Silfrinu í gær 12.2. 2012) Sighvatur Björgvinsson fyrrverandi ráðherra var óðamála í þættinum og spurði spurninga sem hann svo leyfði engum að svara, var með frammígrip og þess háttar dónaskap eins og alþingismenn stunda oft og er þeim til stór skammar sem það stunda. Þarna var einnig Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins hann telur sig vita allt um lífeyrissjóði og kallar alla umræðu sem ekki er að hans skapi lýðskrum, dylgjur, árásir og alslags stóryrðum í þeim dúr.

Það sem vantaði í þessa umræðu er að þessir menn virtust taka málstað lánadrottnanna, menn töluðu um að skuldarinn hefði fengið lán og bæri að greiða það upp í topp hvað sem liði getu hans til að greiða. Engin virtist gera sér grein fyrir að ef skuldarinn með sitt yfirveðsetta hús gefst upp og fer í þrot, verður sjóðurinn að færa niður skuldina til að geta selt húsið aftur. Þá stenst ekki dæmið hans Sighvats um manninn sem fekk 1.000.000 kr lánaðar og verðbæturnar frá hruni væru 40% og því verði hann að greiða til baka 1.400.000 kr hvort sem hann getur eða ekki og oft hefur verðmæti eignarinnar lækkað líka þannig að eignin er orðin veðsett langt umfram vermæti hennar og þess vegna verður að afskrifa skuldir hvort sem er.

Því fyrr sem fjármálastofnanir og "sérfræðingar" gera sér grein fyrir þessu því betra. Það hlýtir að vera ömurlegt að sjá ekki fram á að eignast nokkur tímann íbúðina eða húsið sem fólk er að greiða af í hverjum mánuði stóran hluta tekna sinna, mig grunar að þeir sem töluðu í Silfrinu hans Egils séu sjálfir komnir fyrir vind með allt sitt og skilja þessvegna ekki skelfingu þeirra sem keyptu eignir á árunum fyrir hrun og standa nú uppi með yfirskuldsettar eignir án þess að hafa gert neitt rangt og þrátt fyrir að hafa upphaflega verið varkárir og aðeins tekið 70% lán til kaupana, eru bara fornarlömb þessa gufuruglaða kerfis sem nákvæmlega þessir umræddu "besservisserar" komu á, sjálfsagt í góðri trú en bjuggu til skrímsli sem þeir geta svo ekki viðurkennt að ráða ekkert við, heldur bulla óðamála í spjallþáttum um að allt fari til andskotans ef skrímslið fær ekki nægju sína.

07 febrúar 2012

Baugsklíkan skelfir SjálftökuFLOKKINN.

Það er undarleg afstaða íhaldsmanna að kalla alla sem ekki eru innmúraðir í Sjálftökuflokkinn baugspenna aða að þeir séu í baugsklíkunni og hljóti þess vegna að vera verri en innmúraðir íhaldskurfar eða eðalættaðir skúrkar og sjálftökuliðið. Fyrrverandi Dómsmálaráðherra skrifa á síðu sína um „baugsklíkuna“ en klíkan mun innihalda þá sem skrifa á móti Landsdómi, móti því að dómurinn fái að klára starf sitt sem honum var falið, að reyna að ná fram því að ráðherrar axli ábyrgð á gjörðum sínum. Reyndar er formaður klíkunnar búinn að stefna ráðherranum fyrrverandi fyrir róg eða eitthvað slíkt, en hann skrifaðu heila bók um baugsklíkuna, fulla af rangfærslum skilst mér, hef ekki lesið hana.
Þessum mönnum er slétt sama um og fólkið sem daglega er fyrir rétti vegna minnstu yfirsjóna en hefur ekki hrun heillar þjóðar á samviskunni, það má fara fyrir dómstólana án afskipta elítunnar á Alþingi.

Það virðist gjósa upp einhverskonar samheldni á Alþingi á stundum sem þessum og þingmenn túlka sem neyðarstund og þeim beri að afstýra því með öllum ráðum að félagi þeirra verði skoðaður aðeins. Þetta sama heilkenni kemur líka upp á yfirborðið þegar launamál þingmanna eru til umfjöllunar, þá verður þessi samheldni mjög virk og ræður fluttar um hve þingmannsstarfið sé ábyrgðar mikið og þingmenn eigi allan rétt á að fá hærri laun en aðrir og hærri lífeyri  líka og styttri starfsaldur það sem þetta er mjög erfitt starf þó svo þingmenn fái bæði löng sumar og vetrarfrí eins og leikskólabörn í yngstu aldurshópum, eru núna í leyfi vegna "kjördæmaviku" aldrei verð ég var við þingmenn á mínum slóðum í "kjördæmavikunni".

06 febrúar 2012

Oflátungar og illþýði á alþingi?

Stundum er það sagt að þverskurður þjóðarinnar sé á Alþingi. Þetta er ótrúleg einföldun og skrumskæling. Ég sé ekkert sameiginlegt með þjóðinni eins og ég þekki hana og þeim oflátungum og frekjuhundum sem þar sitja, þetta fólk er í því að skammta sjálfu sér betri lífskjör en við venjulegt fólk höfum og gefur skít í vinnuna sína, er bara að gæta sessunautarins á þingi, gæta þess að hann þurfi aldrei að standa fyrir neinu sem hann gerir (af sér) eða gerir ekki. Það er svolítið broslegt að heyra rök þessara bjána fyrir því að koma vinnufélögum og vinum til hjálpar."ég gerði mistök þegar ég vildi (óvart) láta vin minn sæta ábyrgð á því sem hann gerði þjóðinni, það var rangt af mér“, snökt. Staðreyndin er sú að Ögmundur, Guðfríður Lilja, Atli Gísla og fleiri spjátrungar eru þarna einungis til að vekja athygli á sjálfum sér enda að stofna nýja flokka og hindra að nokkurt einast mál nái fram að ganga hjá núverandi stjórnarflokkum og alveg sérstaklega ef það  snýst um að breyta einhverju í þessu landi til betri vegar, fá úr því skorið hvort ráðherrar beri einhvern tímann ábyrgð á því sem hann/hún aðhafast í starfi. Þeir kalla alla sem skrifa og tala ekki eins og þeir "baugsklíku/baugspenna" en í klíkunni eru td. menn eins og Hallgrímur Helgason sem vogaði sér að skrifa í helgarblað DV á dögunum um vörn Bjarna Ben vegna Landsdómsmálsins, hugsið ykkur framhleypnina hjá þessum "klíkumönnum" ráðast á sjálfan formann Sjálfgræðisflokksins og dylgja um Vafning og segja hann um hálsinn á formanninum, Guð hjálpi þessum mönnum. Formaðurinn þurfti að skrifa langa varnar grein í málgagn flokksins, Moggann, sér til varnar, eyða dýrmætum tíma sínum í að "leiðrétta" grein klíkumannsins og síðan spratt fram fjöldi undirsáta formannsins og skrifuðu líka og hældu grein formannsins í hástert (það er nauðsynlegt til að fá að vera áfram í liðinu). Og svo segja þessir klíkumenn að sjálfur guðinn þeirra, Davíð Oddson sé "pólitískur hryðjuverkamaður" að hugsa sér.